top of page

Um verkin

Fiskur, sem flýtur með straumnum er eins og hvert annað hjarðdýr. Annað slagið syndir hann á móti straumum og oft kemur hann sér bara fyrir undir góðum bakka eða í góðri lygnri lænu. Fiðrildin flögra til og frá, berast með vindi og sækja í falleg blóm. Krumminn flýgur um og safnar gersemum. Kusurnar liggja á meltunni og kisa fer þangað sem henni sýnist. Köngulóin spinnur vefi sína og ég mála; Vatnið, loftið, jörðina, dýrin, mennskuna, óttann, hugrekkið, friðinn. Allt af einhvers konar löngun til þess að við sjáum öll hið sameiginlega náttúrulega eðli okkar. Hvernig veit laxinn hvert hann á að synda eða fuglar og fiðrildi hvert skal fljúga?

Tvennt hefur verið sagt við mig sem gladdi mig meir en annað. Japanskur listamaður sagði að ég væri skáld og nokkrir hafa sagt mig mála með hjartanu.

Kveðja, skáldið sem málar með hjartanu.

33.jpg

Málverkið Tíu sólir

Sólarsagan

Margar myndanna eiga sér sögu, stundum kemur hún á undan, samtímis eða eftir á. Verkið Tíu sólir fékk sína sögu við lok verksins. Í því er að finna alls kyns hluti svo sem hjarta sem samtímis er kjarni jarðarinnar, jörð, æðar, rætur, eldgos, dýr, tré, blóm, hlekki, horn, foss og stiga. Allt er þetta eitthvað sem ég hef oft málað. Alls kyns andstæður og hliðstæður, frelsi og hlekkir. Í þetta sinn allt var allt málað í hringjum eða hringavitleysu.

Þjóðsögur og ævintýri eru eitt af áhugamálum mínum svo ég greip bók og opnaði af tilviljun á kínverskri þjóðsögu sem heitir Tíu sólir. Sagan segir frá því að í upphafi hafi verið til tíu sólir, bræður sem bjuggu í risastóru tré. Þeir skiptust á að skína yfir heiminum og að kvöldi dags böðuðu þeir sig í vatni, settust upp í tréð og svo tók næsti vaktina næsta dag. Dag einn urðu þeir svo leiðir á hversdagsrútínunni að þeir héldu allir til himins og skemmtu sér konunglega. Það reyndist ekki mjög gott því hitinn varð svo mikill af þeim öllum að allt skrælnaði og brann á jörðinni. Foreldrar þeirra urðu afar reiðir og skipuðu þeim niður en synirnir gegndu engu. Að lokum sendi faðir þeirra færa bogaskyttu til þess að kenna þeim lexíu en hann missti stjórn á skapi sínu og skaut niður alla nema einn. Níu bræður féllu til jarðar sem þrífættar krákur. Nú er sólin/sólinn bara ein/einn og enginn til að leysa hana/hann af. Á málverkinu eru tíu sólir og jörðin að utan og innan.

Boðskapur sagna er skemmtilegur, það borgar sig ekki að halda teiti, fljúga of nærri sólu eða fá sér epli. Allt þetta getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar.

bottom of page